Rúnar les Steinar

Steinar í djúpinu

Leikstjóri: Rúnar Guðbrandsson. Tónlist: Guðni Franzson. Leikmynd: Móeiður Helgadóttir. Lýsing: Garðar Borgþórsson. Búningar: Ásta Hafþórsdóttir. Gervi: Myrra Leifsdóttir. Hljóðljóð: Rod Summers. Leikarar: Árni Pétur Guðjónsson, Birna Hafstein, Björn Ingi Hilmarsson, Erling Jóhannesson, Harpa Arnardóttir, Hjálmar Hjálmarsson, Karl Guðmundsson, Ólafur Darri Ólafsson, Steinunn Knútsdóttir Tómas Lemarquis. Hljómsveit: Guðni Franzson, Bryndís Halla Guðjónsdóttir, Daníel Þorsteinsson. Hafnarfjarðarleikhúsið, föstudaginn 21. nóvember 2008 kl. 20. 

Það er alla jafna undarlegt að mæta á sviði þeim orðum, skáldskap sem maður les af bók einn með sjálfum sér. Svo einkaleg er sú reynsla að það að sjá leikara líkamna persónur sem eru til fullskapaðar í eigin huga vekur of oft leiða, ergelsi; þær orka sem klunnalegt áreiti því þær geta aldrei fallið að þeirri tilfinningu, þeirri mynd sem fyrir er. Þær myndir sem Rúnar Guðbrandsson dregur upp úr verkum Steinars Sigurjónssonar koma hins vegar oftast ánægjulega á óvart.

Móeiður Helgadóttir býr til skemmtilegt leiksvæði, þorpið, yfir þveran salinn. Að mestu hallandi trévirki sem er allt í senn bryggja, bátur, þröng vistarvera; upp úr hlerum sem falla inn í virkið geta persónur birst og horfið. Bakgrunnur er þorpið og út á leiksvæðið fyrir framan flyst leikurinn á önnur djúp, inn í aðra heima þar sem tvö baðker, annað efst á virkinu, hitt á gólfi, draga línu milli hafs, vatns: upphafs og endis skálds. Þáttur Móeiðar og Garðars Borgþórssonar (lýsing), hljómsveitar Guðna Franzsonar í að skapa stemningar fyrir sýn Rúnars er mikill. 

Úr brotum úr Blandað í svartan dauðann, Skipin sigla, Djúpinu o.fl., tónlist, hljóðum, sólóum leikara verður til einhvers konar kakófónía sem fyrst og fremst höfðar til sjónar og tilfinninga. Hin tvíeina persóna skáldsins sem heldur í og heldur ekki í þræðina er ákaflega skemmtilega hugsuð; sá eldri, í öruggum höndum Hjálmars Hjálmarssonar, horfir af ró, fjarlægð, þreytu á þorpið, heiminn, reynir að leiðbeina þeim yngri, Tómasi Lemarquis, sem með flottri líkamsbeitingu velkist eins og angistarfull utanveltu brúða inn í atburði og sögur. Þorpinu, upphafi alls, er ekki lýst af kaldhæðni þess manns sem alinn er þar upp og hatar það og elskar í senn, heldur í samhljómi við alþjóðavæddan nútímann sem horfir með óbeit til þjóðlegrar fortíðar: hún er ógeðslegt, illaþefjandi samsafn af sadistum og fíflum. Gervi Myrru Leifsdóttur eiga þar stóran þátt og minna sterkt á finnskt leikhús og filmu níunda áratugarins. Hjónin Lára og Kiddi úr Blandað í svartan dauðann líkjast því helst einhvers konar furðuskepnum með undarlegar hvatir; Harpa Arnardóttir nær samt að sýna ýmsa ákaflega skemmtilega, nýja hluti, einkum þó í kraftmiklu greddusólói sínu. En það teygist of mikið úr því eins og sumum öðrum senum í þessu verki, t.d. sólói Birnu Hafstein sem Æva (af Birnu fær maður annars ekki nóg í sýningunni) þar sem einstaklega frumlega er leikið með texta og hljóð; ég geri mér ekki alveg grein fyrir hvort tími fyrir rennsli hafi verið af skornum skammti eða hér skorti hreinlega tilfinningu leikstjóra fyrir því hvenær hápunkti er náð, – en hann ætti að stytta öll sólóin fyrir næstu sýningu. Einnig furðar maður sig á því hversu oft textinn er lítt undirbyggður vitsmunalega, hve oft hann fellur flatur, hvað hljómsveitin fær oft að yfirtaka hann. Þar verður þó að undanskilja textameðferð Hjálmars Hjálmarssonar, Björns Inga Hilmarssonar, Erlings Jóhannessonar sem var sá eini sem ég þekkti þorpið mitt í, og svo auðvitað Karls Guðmundssonar sem stingur hér m.a. upp kolli sem barn og í brotum úr hljóðupptökum á snilldarlestri hans á Steinari sem klippt eru inn í sýninguna. 

Að þessu sögðu er maður þó fullur aðdáunar á vinnu Rúnars Guðbrandssonar, hvernig hann á skondinn hátt skeytir saman hinum ólíku þráðum og hvað hann dregur upp fyrir okkur margar fallegar og áhrifamiklar myndir úr verkum Steinars að því er virðist fyrst og fremst til að skynja. 

María Kristjánsdóttir