- Tilraunastöð.
- Rannsóknarstofa.
- Þjálfunarbúðir.
- Höfundasmiðja.
- Alþjóðlegt samstarf.
Lab Loki er skapandi tilraunaleikhús sem gengur m.a. út frá þeirri hugmynd að leikarinn sé þungamiðja leiklistarinnar, uppsprettan og frumkrafturinn í þeirri orkustöð sem við köllum leikhús. Þess vegna lagði hópurinn upphaflega mikla áherslu á sköpunarkraft og tækni leikarans í vinnu sinni m.a. með því að stunda daglega þjálfun auk æfinga og sýninga.
Leikhópurinn var stofnaður í Reykjavík, 1992, og til að byrja með var mikil áhersla lögð á kraftmikla þjálfun, markvissar tilraunir og skipulagðar rannsóknir á tjáningarmeðulum leikarans, hópvinnu og sameiginlega sköpun. Úr þessum jarðvegi spruttu tvær fyrstu leiksýningar hópsins, Heima er best og Streymi´93.
Í upphafi árs 1996 flutti hópurinn bækistöðvar sínar til Bretlands og endurnýjaði krafta sína með þátttöku nýrra meðlima og samstarfi við sviðslistamenn og sérfræðinga á ýmsum sviðum. Á þessum árum var haldið áfram að þróa ýmsar tilraunir og rannsóknaraðferðir er lutu að samspili forms og inntaks, rýmis og tíma, auk þess sem tekist var á við nýjar aðferðir í þjálfun og vinnu leikarans. Sjö sýningar litu dagsins ljós í Englandi, sumar hverjar í samvinnu við starfandi sviðslistahópa eða stofnanir. Flestar þessara sýninga voru sýndar víða og vöktu athygli fyrir frumleika og djörfung, en mestur varð vegur Amlodi’s Journey, sem vann til fjölda verðlauna og var boðið á leiklistarhátíðir vítt og breytt um veröld alla.
Aldamótaárið 2000 gerði hópurinn Reykjavík aftur að vettvangi sínum og þar eru höfuðstöðvar hópsins í dag. Eftir heimkomuna hefur Lab Loki enn fært út kvíarnar og auk þjálfunar og sviðsetninga hefur hópurinn staðið fyrir ýmis konar menningarstarfsemi, t.d. viðburðastjórnun, námskeiðahaldi, gestaleiksýningum, myndlistarsýningum, ördanshátíðum, umræðufundum og ýmis konar gjörningum og uppákomum við ólík tækifæri. Leiksýningarnar frá þessu tímabili eru mjög fjölbreyttar, t.d. rýmis sviðslistaverkin (site-specific) Uppsprettur augnablika í Smáralind og Vera – við berjumst með ástina að vopni í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu, barnaleiksýningin Baulaðu nú . . sem sýnd var víða í listasöfnum og galleríum, Ragnarök 2002, þar sem teflt var saman hinni japönsku Suzuki leiktúlkunaraðferð og textum úr Eddukvæðum og síðast en ekki síst Aurora Borealis, millilandaleiksýning sem fór fram samtímis í Danmörku, Íslandi og á Veraldarvefnum.
Flest voru þessi verkefni unnin án landamæra og listamenn hvaðanæva að komu að þeim, en Lab Loki heldur góðu sambandi við ýmsa erlenda leikhúslistamenn og sviðslistahópa, enda er alþjóðlegt samstarf og miðlun í hávegum höfð.
Lab Loki c/o:
Rúnar Guðbrandsson. Njörvasund 12, 104, Reykjavík.
Sími: 588 4685 / 694 4249.
Netfang: labloki@mmedia.is
Heimasíða: https://www.labloki.is