Bæði ljót og falleg

Úr Víðsjánni á RÚV.

Um helgina frumsýndi leikhópurinn Lab Loki verkið Steinar í djúpinu í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Verkið byggir á skáldskap Steinars Sigurjónssonar, en leikgerðin er eftir Rúnar Guðbrandsson sem leikstýrir sýningunni jafnframt. Verkið byggir í raun ekki á ákveðnum skáldsögum heldur er öllu heldur dregin upp mynd af þeim heimi sem sem birtist í skáldsögum Steinars. Vissulega má finna senur sem tengja má við ákveðnar bækur, eins og til dæmis stormasamt samband Kidda og Láru úr Ástarsögu og íkveikjan úr Skipin sigla en það er í sjálfu sér ekki aðalatriðið hér. Hér er skapaður heimur þar sem sögupersónur og skáldið sjálft draga upp myndina og þessi heimur er furðulegur, óhugnanlegur, gróteskur, ljóðrænn og ljótur, rétt eins og skáldskapur Steinars.

Hér hittir áhorfandinn fyrir ýmsar persónur úr Skagasögunum svokölluðu, sjómennina sem  drekka til að gleyma fábreytileikanum, lífið gengur út á fyllerí, ofbeldi og einhverskonar tilvistarsorg. Lífið er svarthol þar sem ekkert gerist í raun og veru, fólkið í þessu guðsvolaða plássi í Skagasögunum er fast í endurtekningunni og hversdagsleikanum. Sjómennirnir eiga í raun hvergi heima og draumar þeirra snúast aðallega um það, að eignast konu og samastað í lífinu en þessir hógværu draumar verða einhvern veginn fáránlegir í þessum miskunnarlausa heimi þar sem ofbeldið tekur alltaf yfir. Hér eru menn reknir áfram af frumhvötunum, þetta er spurning um að eiga í soðið, brennivín að drekka og einhverja möguleika á því að svala fýsnum sínum, þannig er hversdagsleikinn, að minnsta kosti hér. Það er óhætt að segja að Steinar Sigurjónsson hafi ekki dregið upp rómantíska mynd af lífinu á sjónum, það er ekki nostalgísk sjómannavalsastemning sem svífur yfir vötnum hér heldur andrúmsloft sem er einhverskonar sambland af miskunnarlausum veruleika og yfirdrifinni ljóðrænu. 

Einnig kemur höfundurinn sjálfur við sögu en hann birtist í tveimur persónum sem báðar bera skáldanöfn hans, það eru Sjóni Sands og Bugði Beygluson sem túlka höfundinn á mismunandi æviskeiðum. Sjóni er hið þroskaða skáld, hann hefur yfirsýn og sér hlutina í samhengi en Bugði er hinsvegar unga skáldið sem staðsetur sig í miðju atburða og lætur hrífast með. 

Styrkleiki þessarar sýningar felst fyrst og fremst í heildarmyndinni þar sem allir þættir sýningarinnar fléttast listilega saman til að skapa þennan heim sem lýst var hér á undan. Leikmynd Móeiðar Helgadóttur vísar til skipsins í víðum skilningi, bæði eiginlegum og svo táknrænum þar sem persónurnar eru jú allar á einhvern hátt fastar á dalli fábreytileika og eymdar. Búningar Myrru Leifsdóttur og leikgervi Ástu Hafþórsdóttur brúa ágætlega bilið milli raunsæis og grótesku og lýsing Garðars Borgþórssonar hreinlega býr til dýpið sem persónurnar sogast niður í þegar líða tekur á sýninguna. Ekki síst ber að nefna tónlist Guðna Franzsonar sem setur mikinn svip á sýninguna, Þar takast á dapurlegir og gamaldags jazzslagarar sem Guðni flytur á klarinettinn í sýningunni ásamt þeim Daníel Þorsteinssyni píanóleikara og Bryndísi Höllu Gylfadóttur sellóleikara og svo tónlist sem leikin er af bandi þar sem hvíslið í vindinum og gargið í hafinu leika stórt hlutverk. Tónlistin og markviss beiting hennar í uppsetningunni situr í manni að sýningu lokinni, þessi þáttur er unninn af svo fínni tilfinningu fyrir leikshúsmiðlinum.

Ellefu leikarar koma við sögu í þessari sýningu ef hænan Dúlla er meðtalin og í heildina er leikurinn vandaður og heildarmyndin sterk sem skiptir auðvitað miklu máli í þessu tilviki þar sem draga á upp mynd af hugarheimi. Það má í raun segja að leikurinn endurspegli mótsögnina sem birtist í höfundarverki Steinars, ruddalegan veruleikann og draumkenndar vangaveltur um eðli manns og skáldskapar. Hreyfingar og látbragð slá taktinn í þessari sýningu og eru drifkraftur hennar, það eru sterk tengsl milli þess sem leikararnir gera á sviðinu og hugmyndanna sem verkið byggir á sem er erfitt að útskýra, djúpur skilningur sem maður skynjar einhvern veginn. Harpa Arnardóttir er sérdeilis fín í hlutverki Láru, sem á í óskilgreindu sambandi við Kidda sem kemur alltaf með fisk í soðið þegar hann er í landi  og í staðinn fær hann afnot af líkama hennar. Hún er hinsvegar ekki við eina fjölina felld en meintur ástmaður hennar er önnur birtingarmynd skáldsins í verkinu sem flækir málin heilmikið. Harpa gerir þessari persónu góð skil, hún verður dásamlega tragíkómísk, sveitastúlkan sem veit aðeins eitt. Hún vill aldrei fara í aftur sveitina. Árni Pétur Guðjónsson leikur Kidda sem er einhvern veginn bæði óöruggur, blíður og ofbeldisfullur en þetta kemur allt vel fram í leik Árna Péturs. Ólafur Darri Ólafsson ,Erling Jóhannesson og Björn Ingi Hilmarsson leika hina sjómennina en þeir unnu allir vel. Þetta eru yfirmáta einmana menn sem hafa ekkert betra að gera en að vinna og drekka og láta sig dreyma um kvenfólk sem vill í fæstum tilvikum koma nálægt þeim. Einangrun og einmanaleiki þessara manna er bæði þrúgandi og dapurlegur.  Steinunn Knútsdóttir fer með hlutverk konu sem fylgist með öllu í þorpinu, hún liggur alltaf á hleri og gægist inn um gluggana, kannski má segja að hún sé táknræn fyrir íbúana í þorpinu þar sem allir vita allt um alla. 

Birna Hafstein leikur Ónu, fallegu stúlkuna sem kemur í þorpið og er auðvitað í hróplegri mótsögn við ljótleikann og skítinn alltumlykjandi. Hún er líka öðrum þræði gyðja skáldanna, hún les bækur og sýnir öðrum kurteisi og hlýleika. Hún kemst hinsvegar ekki klakklaust frá lífinu í þorpinu og senan þar sem hún er svívirt er afar sláandi þó hún sé svo sannarlega unnin af yfirvegun og hægð. Þeir Hjálmar Hjálmarsson og Tómas Lemarquis leika svo birtingarmyndir skáldsins, þá Sjóna og Bugða og gera það að ágætlega, þeir ná að draga upp ólíkar birtingarmyndir skáldsins sem birtist hér bæði í reynslu sinni og óöryggi.

Hinsvegar má segja að hlutverk skáldsins líði aðeins fyrir það að textinn verður helst til sundurlaus og flókinn á köflum og það er helsti veikleiki þessarar sýningar. Að vissu leyti má lýsa þessu sem ofgnótt hugmynda og orða sem kallast að einhverju leyti á við stíl höfundarins en hér birtist þetta þannig að textinn ber það sem að gerast á sviðinu stundum ofurliði, sérstaklega í seinni hlutanum. Það er verið að segja svo margt, textinn fær of mikið vægi innan heildarmyndarinnar sem er annars svo vel mótuð eins og hér hefur komið fram. Textinn hefði þannig stundum mátt vera skýrari og hnitmiðaðri og þá hefði sýningin líklegast orðið styttri en við því má hún svo sannarlega. 

En hinsvegar er þessi sýning leikræn upplifun þar sem vandað er til verka og möguleikar miðilsins nýttir til hins ýtrasta, þessi sýning er bæði ljót og falleg eins og skáldskapurinn sem hún byggir á og situr eftir í manni, ekki beinlínis í hjartanu heldur öllu heldur í kviðarholinu. Það eru víst ekki margar sýningar fyrirhugaðar þannig að það um að gera að drífa sig í fjörðinn og það fyrr en seinna.