Kolsvört kómedía

Steinar Sigurjónsson var sérstæður rithöfundur, það gerir sýning Lab Loka í Hafnarfjarðarleikhúsinu á Steinari í djúpinu (eða Steinum í djúpinu) jafnljóst og verða má. Leikverkið er byggt „á skáldheimi Steinars Sigurjónssonar“, eins og segir í leikskrá, aðallega verkunum Blandað í svartan dauðann, Skipin sigla og Djúpinu.

Leikstjóri og handritshöfundur er Rúnar Guðbrandsson og hann hefur fengið algert topplið með sér á alla pósta. Tónlistinni sem skipar veglegan sess í sýningunni stýrir klarínettséníið Guðni Franzson og hefur með sér snillingana Bryndísi Höllu Gylfadóttur á selló og Daníel Þorsteinsson á píanó. Leikmyndina sem gefur til kynna bæði fátækleg húsakynni í sjávarþorpi um miðja síðustu öld og skipin sem karlarnir sigla á gerir Móeiður Helgadóttir, afkáraleg gervin og dæmalausa búningana sjá þær um Myrra Leifsdóttir og Ásta Hafþórsdóttir og lýsingunni sem stundum var hreint ævintýraleg stýrði Garðar Borgþórsson.

Sögur Steinars af lífinu meðal sjómanna og fjölskyldna þeirra á Skaga, Ástarsaga (1958), Hamíngjuskipti (1964) og Blandað í svartan dauðann (1967), eru einhverjir nöturlegustu textar sem maður les. Persónur hans eru oft líkari skynlausum skepnum en mennskum mönnum; í samanburðinum verður Grindavík Guðbergs Bergssonar dannað samfélag. Í sýningunni hittum við þetta fólk, hjónin Láru (Harpa Arnardóttir) og Kidda (Árni Pétur Guðjónsson), Ónu (Birna Hafstein), Gísla (Erling Jóhannesson), Jón eða Nonna (Ólafur Darri Ólafsson), Kol (Björn Ingi Hilmarsson) og skáldið sjálft sem Hjálmar Hjálmarsson og Tómars Lemarquis skiptu á milli sín. Hjálmar var skáldið gamalt, Tómas skáldið ungt. Að auki hittum við fyrir Línu og Bínu (Steinunn Knútsdóttir) og Íslendinginn (Karl Guðmundsson). Karl brá sér líka í önnur hlutverk eftir hendinni af list. Loks verður að nefna hænuna Dúllu sem öllum til mikillar furðu reyndist vera sprelllifandi!

Það er fljótsagt að þessi hópur gerði kraftaverk á sviðinu í Hafnarfirði, lét myrkan texta Steinars lifna á tragíkómískan hátt svo að ég veit að hann hefði notið sýningarinnar í botn hefði hann lifað að fá að sjá hana. Hér voru atriði sem ekki gleymast svo glatt, ofbeldisverkið á stúlkunni sem kemur í þorpið og er „öðruvísi“, falleg og hrein; framhjáhald Láru þar sem Harpa Arnardóttir fór jafnvel framúr sjálfri sér með frábæru látæði og textaflutningi; vangaveltur Bugða og Gísla um níðingsverkið sem þeir hafa ráðið sig til að fremja …

Rúnari Guðbrandssyni tekst að lífga Steinar við á sviðinu, jafnvel þannig að maður er búinn að fá vel fylli sína í lokin, en án þess hefði þetta heldur ekki verið Steinar. Hann hefur alltaf lag á að skammta manni of mikið! Það verða bara sex sýningar: Ég skora á áhugamenn um leikhús að láta sýninguna ekki fara framhjá sér.

 

Silja Aðalsteinsdóttir um Steinar í djúpinu á vef Tímarits Máls og menningar: