Ljótt og fallegt leikhús

Víðsjá: Salka Guðmundsdóttir.

Jean Genet var þjófur, lygari og hommi. Jean Genet var á götunni, og hann sat í fangelsi. Jean Genet var baráttumaður, leikskáld og skáldsagnahöfundur. Jean Genet var sannkallað vandræðabarn í franska bókmenntaheiminum, hann skrifaði um skítugri hliðar mannlífsins sem fæstir vildu sjá, um vændiskonur, glæpamenn, svikara og ofbeldi. Þrátt fyrir írafárið sem varð í kringum verk Genets þegar hann kom fyrst fram á sjónarsviðið hefur hann fyrir margt löngu verið tekinn í sátt sem einn af mögnuðustu og áhrifamestu leikhúsmönnum 20. aldarinnar. Honum hefur verið skipað í flokk með absúrdistunum sem fóru mikinn um miðvik síðustu aldar, en sömuleiðis eru tengslin við Antonin Artaud augljós.

Það hefur þó merkilega lítið farið fyrir Genet á íslensku leiksviði hingað til; Svalirnar voru settar upp í Nemendaleikhúsinu fyrir hartnær þrjátíu árum, og Vinnukonurnar hafa áður birst í Kaffileikhúsinu og Tjarnarbíói, en nú eru þær aftur komnar í Tjarnarbíó fyrir atbeina leikhópsins Lab Loka. Uppfærsla hópsins nefnist Svikarinn, og vísar titillinn meðal annars til þeirrar aðferðar sem beitt er við uppsetninguna; hópurinn svíkur leikskáldið, stelur frá sjálfum þjófnum og raðar saman upp á nýtt.

Forsprakki Lab Loka er Rúnar Guðbrandsson, sem leikstýrir Árna Pétri Guðjónssyni í einleik þessum sem þeir félagar hafa í sameiningu unnið upp úr Vinnukonunum og fleiri verkum Genets. Verkið sem liggur til grundvallar ber ýmis höfundareinkenni Jeans Genet; systur sem starfa sem vinnukonur hjá fínni frú setja á svið hrottafengið morð á frúnni meðan hún er fjarverandi, þær leika hlutverk, setja sig í ögrandi stellingar, reyna á mörkin og afhjúpa eigin langanir og þrár. Helgiathöfnin eða ritúalið er þrástef í verkum Genets, hlutverkaleikir, táknræna í myndmáli og hluti fyrir heild. Persónur hans eru gjarnan fólk sem er valdalítið í hinu stærra samhengi en tekur sér völdin í hönd í tilteknum aðstæðum; systurnar í Vinnukonunum lifa lífinu í stöðugri niðurlægingu sem annars flokks manneskjur, og fá útrás fyrir reiðina með því að sviðsetja morðið á frúnni. Í ritúalinu endurspeglast svo enn fremur valdabarátta systranna tveggja. Valdníðsla er tifandi tímasprengja. Viðsnúningur á valdastöðu afhjúpar fáránleikann sem felst í stigveldisskipan.

Í uppfærslu þessari er notast við þýðingar Melkorku Teklu Ólafsdóttur og Vigdísar Finnbogadóttur á verkinu, auk þess sem bætt er inn texta úr öðrum verkum skáldsins, sem og frumsömdum texta sem varð til í spunavinnu á æfingatímanum. Árni Pétur stendur eins og áður var sagt einn á sviðinu og persóna leikarans fléttast inn í verkið, stígur út úr því, rennur saman við það, tekur niður fjórða vegginn en minnir áhorfendur um leið á tilgerð leikhússins. Einleiksformið bætir við merkingarsvið verksins; persónurnar verða eins og margar hliðar á sömu manneskjunni, auk þess sem sú ögrun við viðtekin kynhlutverk sem finna má í hinu upprunalega verki verður enn meiri.

Hér er varpað upp fjölmörgum spurningum um kyn, kynhneigð og kynhlutverk, um þá sviðsetningu sem útfærsla okkar allra á eigin kynhlutverki er, hvort sem við fylgjum viðteknum gildum eður ei. Vísað er í sígild kvenhlutverk og staðalmyndir, og umgjörð og búningar Filippíu Elísdóttur ásamt lýsingu Garðars Borgþórssonar mynda afar leikrænan heim, fullan af táknmyndum og skírskotunum. Speglarnir þrír sem á sviðinu standa undirstrika þann klofna persónuleika sem birtist á sviðinu og er ef til vill alltaf til staðar í leikhúsinu; þeir eru einnig bein skírskotun í táknmyndir í verkum Jeans Genet.

Sögumaðurinn Árni Pétur minnir okkur á lygina sem felst í leikhúsinu og á sama tíma hlýtur sögumaðurinn sjálfur að verða tortryggilegur; í hvert sinn sem áhorfandinn telur sig hafa fast land undir fótum er hlutunum snúið á hvolf og leikarinn sér við okkur, eins og sér viðbrögðin fyrir og kollsteypir þeim. Uppfærsla Rúnars er spennandi og vel útfærð blanda af meðvitaðri úrvinnslu á efni og formi leikhúshefða og hrárri list augnabliksins.

Fram kemur í leikskrá að kaflaskipting Svikarans einkennist af beitingu leikstíls af ólíkum toga og greinilegt er að þeir félagar hafa víða leitað fanga; þegar litið er á uppsetninguna í heild sinni má segja að hún sé eins konar krufning á list leikarans, eða kannski öllu heldur óður til þess leikhúss sem hefur list leikarans í öndvegi. Sýningin er vitsmunaleg – í jákvæðum skilningi – en þessi meðvitund um formið kemur ekki í veg fyrir að hægt sé að njóta hennar á tilfinningalegri forsendum, hrífast með og lifa sig inn í það sem fram fer á sviðinu. Árni Pétur nær bæði að galdra fram hið ljóðræna og að segja sögu um kúgun, sturlun og fantasíur. Hann á bráðfyndna spretti – því uppfærslan er líka uppfull af svörtum húmor, mikilfenglegum dansatriðum og súrrealískum tilþrifum – og leggur sjálfan sig að veði, tekur áhættu og uppsker ríkulega. Svikarinn er bæði ljótt og fallegt leikhús, á stundum óþægilegt, sorglegt og fyndið.

Það er hressandi að sjá leikhús sem þorir að vera meðvitað um sjálft sig, þorir að vona að áhorfandinn hafi vit í kollinum og geti komið til móts við það.