Ördansar

Þann 19. apríl síðastliðin var haldin Ördansahátíð í Nýlendunni, Nýlendugötu 15a. Á hátíðinni voru sýndir ördansar.

Ördans getur verið dans sem tekur mjög stuttan tíma, dans sem tekur mjög lítið pláss eða dans sem af einhverjum öðrum ástæðum á skilið forskeytið ör-. Ördansahátíðin var í sjálfri sér ör-hátíð, þar sem hún tók aðeins nokkra klukkutíma. Eins var undirbúningstíminn örstuttur. Öllum var velkomið að taka þátt í hátíðinni, hvort heldur er sem gerendur eða áhorfendur.

Vera – Við munum berjast með ástina að vopni

24. – 25. október 2003

Á vordögum 1942 var stofnaður sérstakur Ungdómsdómstóll sem dæmdi stúlkur til betrunarvistar, sem grunaðar voru um óæskilegan samgang við breska og bandaríska hermenn. Þessi dómstóll var starfræktur til ársins 1944. Fyrir þessar stúlkur sem og aðrar ástandskonur þessa tíma var neyðarúrræðið að verjast og berjast með ástina að vopni.

Vera er hluti af verkefna röð Firenzu Guidi og Elan Wales, Wales sem spannar leikárið 2003-2004 og ber vinnu heitið The Machine- When is a man/woman free? Þar er rannsóknaefnið sótt í nornaveiðar í gegnum tíðina og það skoðað hvernig þessar „veiðar“ verða hluti af stofnun og réttlættar af yfirvaldi.

  • Þátttakendur: Auður Bjarnadóttir, Caroline Dalton, David Murray, Dylan Williams, Giusi Bisantino, Nína Magnúsdóttir, Lára Sveinsdóttir, Ólöf Ingólfsdóttir, Ólöf Sigríður Valsdóttir, Páll S. Pálsson, Rúnar Guðbrandsson, Þórey Sigþórsdóttir, 1. ársnemar úr leiklistadeild Listaháskóla Íslands, Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð & Vox Femine.
  • Hugmynd og leikstjórn: Firenza Guidi.
  • Ljósahönnun og tæknistjórn: Egill Ingibergsson.
  • Tónlist: Giusi Bisantino (píanó), David Murray (gítar), Dylan Williams (rödd/franskt horn) auk annarra þátttakenda.
  • Framleiðandi: Steinunn Knútsdóttir / Lab Loki.

Miðasala í síma: 590 1200.

Þakkir fá: Orkuveita Reykjavíkur, Þjóðleikhúsið, Filippía Elíasdóttir, Bára Baldursdóttir & Karl K. Karlsson.

Verkið er unnið í samstarfi við Listaháskóla Íslands, Listasafn Reykjavíkur og Ólöfu Danskompaní.

Baulaðu nú… Dagur í lífi Kristínar Jósefínu Páls

Á listasafninu hangir Móna Lísa í rammanum sínum með brosið dulúðarfulla innanum listaverk af mörgum toga. Á hverjum degi kemur hreingerningakonan skrautlega með sína líflegu fantasíu, syngur óperu og fílósóferar um list og lífið. Með sinni líflegu afstöðu fær hún hluti til að lifna við og á endanum er Móna komin út úr rammanum (með afkáralegan neðri hluta) og á milli þeirra opnast heimur fantasíu þar sem allt í umhverfinu lifnar við og hlutir, myndir og hljóð taka á sig nýja mynd.

Hreingerningavagn kerlingar verður uppspretta sögunnar um Búkollu þar sem gúmmíhanski breytist í spena og síðar Búkollu, moppur standa fyrir brúsk trölla o.s.frv.

Vagninn er notaður af hugmyndaríki í að blása lífi í þessa fornu en sígildu sögu. Ramminn utan um Mónu verður vettvangur dúkkuleikhúss og verkin í kring sem innblástur. Þær stöllur segja söguna af Búkollu með mikilli gleði og ákafa.

Þegar sagan er sögð og Móna þarf að hverfa aftur inn í rammann til að sinna sínu hlutverki, tekur hreingerningakonan eftir því að vagninn hennar hefur tekið umbreytingum, þar trónir Búkolla og drengurinn með steingerðum skessunum í bakgrunni… þetta hlýtur að vera orðið listaverk. Hún tekur því af sér nafnspjaldið og skilur það eftir á vagningum og lætur hann standa jafnfætis hinum listaverkunum. „Búkolla eftir Kristínu Jósefínu Páls“.

Sýningin tekur uþb. 45 mín í flutningi.

Sýningin er unnin út frá hugmynd Steinunnar Knútsdóttur og Jónu Ingólfsdóttur en mótuð af leikhóp.

Leikstjórn/hugmynd: Steinunn Knútsdóttir
Leikarar: Lára Sveinsdóttir & Kristjana Skúladóttir
Útlitshönnun: Nína Magnúsdóttir

Dómar: Baulaðu nú…

„Hér ríkir kraftur, gleði og svo fjölbreytt ímyndunarafl að hér eru allir mögulegir hlutir nýttir í þágu sýningar sem þrátt fyrir efnivið af ólíkum toga veitir áhorfandanum í sýningarlok þá fullnægju sem vel unnið heildstætt verk eitt gerir.“

– Sveinn Haraldsson, Mbl.

 

„Hugvit er allt sem þarf, og það hafa aðstandendur Lab Loka í bílförmum.“

– Silja Aðalsteinsdóttir, DV