Steinar Sigurjónsson var sérstæður rithöfundur, það gerir sýning Lab Loka í Hafnarfjarðarleikhúsinu á Steinari í djúpinu (eða Steinum í djúpinu) jafnljóst og verða má. Leikverkið er byggt „á skáldheimi Steinars Sigurjónssonar“, eins og segir í leikskrá, aðallega verkunum Blandað í svartan dauðann, Skipin sigla og Djúpinu.
Leikstjóri og handritshöfundur er Rúnar Guðbrandsson og hann hefur fengið algert topplið með sér á alla pósta. Tónlistinni sem skipar veglegan sess í sýningunni stýrir klarínettséníið Guðni Franzson og hefur með sér snillingana Bryndísi Höllu Gylfadóttur á selló og Daníel Þorsteinsson á píanó. Leikmyndina sem gefur til kynna bæði fátækleg húsakynni í sjávarþorpi um miðja síðustu öld og skipin sem karlarnir sigla á gerir Móeiður Helgadóttir, afkáraleg gervin og dæmalausa búningana sjá þær um Myrra Leifsdóttir og Ásta Hafþórsdóttir og lýsingunni sem stundum var hreint ævintýraleg stýrði Garðar Borgþórsson.